Jason Cundy fyrrum leikmaður Chelsea og Tottenham segir að Leeds sé fyndið lið sem verjist eins og pöbbalið. Leeds er komið aftur í deild þeirra bestu og hefur liðið vakið athygli í vetur.
Leeds spilar skemmtilegan sóknarbolta og hafa margir sparkspekingar hrósað liðinu, liðið er hins vegar ansi klaufalegt í varnarleik sínum og gefur mikið af ódýrum mörkum. Everton vann í gær 2-1 sigur á Leeds United í ensku úrvalsdeildinni. Leikið var á Elland Road, heimavelli Leeds. Gylfi Þór Sigurðsson, var í byrjunarliði Everton og bar fyrirliðabandið. Hann skoraði fyrsta mark leiksins á 9. mínútu eftir stoðsendingu frá Lucas Digne.
Á 41. mínútu tvöfaldaði Dominic Calvert-Lewin, forystu Everton með marki eftir hornspyrnu sem Gylfi Þór tók í teignum.
Raphinha, minnkaði muninn fyrir Leeds United með marki á 48. mínútu en nær komust heimamenn ekki. Leikurinn endaði með 2-1 sigri Everton sem situr í 5. sæti deildarinnar með 36 stig. Leeds United er í 11. sæti með 29 stig.
„Leeds? Þeir eru fyndið lið. Þeir gefa færi á sér, það er aldrei góð hugmynd að vejða á Leeds,“ sagði Cundy á TalkSport í dag.
Hann segir sparkspekinga ganga alltof langt í að hrósa liðinu. „Þeir fá alltof mikið hrós.“
„Þegar þeir sækja þá er gaman að horfa á þá, en varnarleikurinn hjá þeim eins og í fyrsta markinu gegn Everton er eins og hjá pöbbaliði.“