Jesse Lingard, sem gekk á dögunum til liðs við West Ham United á láni frá Manchester United, átti sannkallaða draumabyrjun með Lundúnaliðinu í gær.
Lingard var í byrjunarliði West Ham og skoraði tvö mörk í 3-1 útisigri gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni. Hann hafði ekkert spilað í deildinni á þessu tímabili fyrir leik gærkvöldsins.
Lingard var ekki í áætlunum Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóra Manchester United og því var ákveðið að best væri að hann færi á láni frá félaginu.
Lingard virðist hafa verið vel liðinn meðal leikmanna Manchester United sem kepptust við að senda honum stuðningskveðjur á samfélagsmiðlum eftir leik gærkvöldsins.
„Til hamingju bróðir,“ skrifaði Marcus Rashford, sóknarmaður Manchester United, við mynd sem Lingard birti af sér fagna marki í leiknum.
„Elska þetta,“ skrifaði Luke Shaw, vinstri bakvörður Manchester United.
Lingard vill vafalaust sanna sig hjá West Ham en rætt hefur verið um það í enskum pressunni í dag að hann gæti átt möguleika á sæti í enska landsliðinu fyrir Evrópumótið sem fram fer næsta sumar.
David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham var ánægður með framlag leikmannsins í gær.
„Ef hann heldur áfram að spila svona vel og gera frábæra hluti fyrir West Ham þá mun hann verða valinn í enska landsliðið. Það er mín von að hann geri það,“ sagði Moyes á blaðamannafundi eftir sigur West Ham í gær.