Freyr Alexandersson fyrrum aðstoðarþjálfari landsliðsins nýtur lífsins í sólinni í Katar. Hann gerðist aðstoðarþjálfari Heimis Hallgrímssonar hjá Al-Arabi síðasta haust. Al-Arabi hefur gengið vel síðustu vikur en Heimir hefur stýrt liðinu í rúm tvö ár. „Það er vetur hjá okkur núna, það er kalt fyrir heimamenn. Það mætti einn með húfu og vetlinga á æfingu um daginn, það var 18 stiga hiti. Á kvöldin er tuttugu stiga hiti, 26 stiga hiti yfir daginn,“ sagði Freyr í viðtali við hlaðvarpsþáttinn, Fandasy Gandalf í dag.
Freyr segir gengi liðsins gott en mikill getumunur sé á leikmönnum, meiðsli komi illa við flest lið. „Það hefur gengið rosalega vel síðustu sjö leiki, þeir hafa verið góðir. Erum taplausir, fimm sigrar og tvö jafntefli. Það er allt rosalega jákvætt núna, það eru miklar sveiflur hjá liðum í þessari deild. Í flestum liðum eru fyrstu ellefu mjög góðir, ef þú lendir í meiðslum þá finnur þú mikið fyrir þú. Það er mikill munur á leikmanni 13-15 og þeim sem eru í byrjunarliðinu.“
Hann segir hugarfar heimamanna eitt af því sem þarf að vinna með, kúltúrinn sé öðruvísi en Íslendingar eigi að venjast. „Það er áskorun að halda mönnum við efnið hérna, það er skemmtileg áskorun fyrir okkur. Það er ekki vandamál á Íslandi, hér þarftu að vera klókur til að halda mönnum við efnið. Það er kúltúr, það þarf að fara djúpt til að skilja það. Þeir eru rosalega misjafnir, eins og veðrið á Íslandi. Þeir vöknuðu þreyttir og þá eru þeir þreyttir á æfingunni, við setjum á okkur vinnuhanskana og vinnum eins og menn. Það gengur vel núna til að fá menn í rétta átt.“
Heimir Hallgrímsson leitaði til Freys á síðasta ári, hann var farinn að vinna helst til of mikið. Honum hefur tekist að finna jafnvægi í starfinu til að vera ferskur.
„Þegar hann biður mig um að koma, þá er hann þreyttur kallinn. Hann er vinnualki, hann er eins og Eyjamaðurinn er. Hann var undirmannaðar í starfsliðinu, mitt fyrsta verk var að vinda ofan af honum og fá hann til að minnka vinnutímann aðeins. Vera ferskari, ýta við honum. Fyrstu vikurnar fóru í að stilla hann af, ég þurfti að setja mig inn í alla hluti. Hvernig deildin virkar og skoða liðið okkar.“
Freyr segir að Heimir hafi unnið kraftaverk með Al-Arabi. Liðið æfi mikið og sé í besta forminu í deildinni. „Það sem Heimir er búinn að gera hérna úr þessu kjúklingasalati sem hann er með, liðið er í rosalegu standi. Hann er geðveikur Eyjamaðurinn, við æfum mest, við erum í rosalegu standi, þetta er allt öðruvísi lið en önnur. Handbragð Heimis er á liðinu.“
Ekki er öruggt að Heimir og Freyr verði áfram hjá Al-Arabi á næstu leiktíð. „Við munum taka ákvörðun varðandi Katar í maí. Við erum búnir að ákveða að geyma þetta og taka ákvörðun í maí.“