Tottenham kom í veg fyrir að Dele Alli færi til PSG á láni, Daniel Levy stjórnarformaður félagsins vildi ekki missa hann. Jose Mourinho, stjóri Tottenham hefur hingað til ekki haft mikinn áhuga á því að nota Dele.
Slæmt gengi Tottenham undanfarið gæti hins vegar orðið til þess að Dele fær tækifæri fyrr en síðar. Mourinho og Dele funduðu í gær til að reyna að leysa vandamálin.
„Við áttum gott spjall í gær, við fundum flöt á þessum málum. Þetta er mikilvægt tímabil fyrir hann og liðið. Við þurfum á Dele að halda,“ sagði Mourinho við fréttamenn í dag.
Dele verður ekki með gegn Chelsea á morgun vegna meiðsla. „Við erum að bíða eftir því að hann verði heill heilsu. Ég tel að okkar spjall hafi kveikt í honum.“
Harry Kane framherji liðsins meiddist gegn Liverpool í síðustu viku en meiðslin eru ekki alvarleg. „Við erum ánægðir með endurhæfingu hans. Við vorum hræddir til að byrja en erum sáttir í dag,“ sagði Mourinho og sagði að líklega yrði Kane klár í næstu viku.