Mildi þykir að ekki skyldi hafa farið verr er einkaflugvél Dries Mertens, framherja ítalska liðsins Napoli, rann af flugbrautinni er hún lenti í Belgíu á laugardaginn.
Mertens var á leið til Belgíu til að hitta sérfræðing vegna ökklameiðsla sinna. Þegar flugvélin lenti á Deurne flugvelli í Antwerp rann hún af flugbrautinni sökum mikillar rigningar sem var á svæðinu.
Flugmenn vélarinnar náðu ekki að halda henni á brautinni og hún rann út á grasbala við enda flugbrautarinnar.
Allir sluppu ómeiddir frá atvikinu, þar á meðal Mertens og það sama má segja um hundinn hans, Juliette, sem var með honum í för.