Tveimur leikjum var að ljúka í 22. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Brighton vann heldur betur óvæntan útisigur á Liverpool er liðin mættust á Anfield. Þá vann West Ham sterkan útisigur á Aston Villa.
Liverpool tók á móti Brighton á Anfield. Leikurinn endaði með 1-0 óvæntum sigri Brighton, eina mark leiksins kom á 56. mínútu, Það var Steven Alzate sem skoraði það eftir stoðsendingu frá Leandro Trossard.
Liverpool varð því af mikilvægum stigum í toppbaráttu deildarinnar. Liðið situr nú í 4. sæti með 40 stig, sjö stigum á eftir toppliði Manchester City sem á einnig leik til góða. Brighton er í 15. sæti með 24 stig.
Aston Villa tók á móti West Ham á Villa Park. Tomás Soucek kom West Ham yfir með marki á 51. mínútu eftir stoðsendingu frá Said Benrahma.
Það var síðan nýliðinn Jesse Lingard sem tvöfaldaði forystu West Ham með marki á 56. mínútu eftir stoðsendingu frá Michail Antonio.
Ollie Watkins minnkaði muninn fyrir Aston Villa með marki á 81. mínútu en Jesse Lingard skoraði sitt annað mark í leiknum og innsiglaði 3-1 sigur West Ham með marki á 84. mínútu.
Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum sem endaði með 3-1 sigri West Ham. Liðið er eftir leikinn í 5. sæti deildarinnar með 38 stig. Aston Villa situr í 9. sæti með 32 stig.
Liverpool 0 – 1 Brighton
0-1 Steven Alzate (’56)
Aston Villa 1 – 3 West Ham United
0-1 Tomás Soucek (’51)
0-2 Jesse Lingard (’56)
1-2 Ollie Watkins (’81)
1-3 Jesse Lingard (’84)