Frank Lampard var rekinn úr starfi sem knattspyrnustjóri Chelsea fyrir viku síðan, tíðindin komu mörgum á óvart enda Lampard stærsta goðsögn í sögu félagsins.
Lampard var á sínu öðru tímabili með félagið, eftir fína byrjun á tímabilinu hallaði undan fæti og félagið ákvað að reka hann. Roman Abramovich, eigandi Chelsea er yfirleitt fljótur að reka stjóra þegar illa gengur.
Það kom hins vegar mörgum á óvart að Lampard fengi ekki ögn meiri vinnufrið, hann hafði lagt sitt að mörkum sem leikmaður og náð fínasta árangri á sínu fyrsta ári í fyrra.
„Þetta kom ekki á óvart vegna þess að sögurnar voru komnar í blöðin. Ég taldi að hann myndi fá meiri tíma, þú verður samt ekki lengur hissa þegar Chelsea á í hlut,“ segir Gary Neville sérfræðingur Sky Sports um málið.
Neville rifjaði svo upp þegar André Villas-Boas var rekinn frá Chelsea árið 2012. „Ég fer aftur til Napoli fyrir einhverjum níu árum, leikur í Meistaradeildinni og Villas-Boas hafði sett Lampard, Michael Essien og fleiri stór nöfn á bekkinn.“
„Leikmenn Chelsea fóru þá að hringja í fjölmiðlamenn og vildu láta reka Villas-Boas, Lampard var í þeim hópi.“
„Chelsea hefur alltaf hagað sér svona gagnvart stjórum, Lampard veit þetta og þetta ætti því ekki að koma honum á óvart. Hann hefur séð alla þessa stjóra koma og fara.“