„Þetta var góð vika, frábærir sigrar fyrir Burnley og svo kom litli drengurinn okkar í heiminn sama dag og leikurinn við Aston Villa var,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson kantmaður Burnley eftir að hafa krotað undir nýjan tveggja og hálfs árs samning við félagið.
Samningur Jóhanns var að renna út í sumar en hann hefur nú framlengt við félagið til ársins 2023 og verður að öllu óbreyttu í hið minnsta sjö ár hjá félaginu.
„Stigin þrjú gegn Villa voru frábær og svo nýr samningur, þetta var frábær vika fyrir mig og mína fjölskyldu.“
Jóhann gekk í raðir Burnley frá Charlton árið 2016. Hann hefur spilað 123 leiki fyrir félagið sem hefur í tvígang á þessum tíma verið á meðal tíu efstu liða í ensku úrvalsdeildinni.
„Mér líður hrikalega vel hjá Burnley, mér líður eins og ég sé hluti af mjög góðri fjölskyldu. Ég hef elskað tíma minn hérna og vonandi eru fleiri góðar stundar á næstunni. Félagið hefur sýnt mikið traust til mín og fyrir það er ég þakklátur.“
Meiðsli hafa hrjáð kantmanninn knáa en hann vonar að betri tímar komi í þeim efnum. „Ég tel mig eiga nóg eftir, meiðsli hafa verið vandamál en ég er spenntur fyrir framtíðinni. Ég er spenntur fyrir því að spila meira og hjálpa liðinu í deildinni.“
„Við trúum því alltaf að við munum halda okkar sæti í deildinni, við vitum að það er erfitt og deildin byrjaði ekki vel. Hlutirnir hafa gengið betur síðustu vikur. Markmiðið er að halda því áfram.“