Robert Pires, fyrrverandi leikmaður Arsenal, hefur trú á því að félagið geti endað í efstu fjórum sætum deildarinnar á þessu tímabili.
Aðal ástæða þess að Pires er svona bjartsýnn fyrir hönd Arsenal er að hann hefur mikla trú á ungu leikmönnum félagsins sem hafa komið inn sem ferskur andblær eftir brösuga byrjun í deildinni á þessu tímabili.
„Ég myndi ekki útiloka að liðið geti endað í efstu fjórum sætum deildarinnar og tryggt sér Meistaradeildarsæti, hlutirnir eru fljótir að breytast í þessari deild,“ sagði Pires í viðtali.
Arsenal hefur ekki tapað leik í ensku úrvalsdeildinni síðan 19. desember 2020 og hefur liðið nálgast efstu sæti deildarinnar undanfarnar vikur.
„Ég er mjög bjartsýnn fyrir framtíðinni hjá Arsenal. Ég sé marga leikmenn hjá félaginu sem hafa mikil gæði, þá sérstaklega ungu leikmennina.
Arsenal er sem stendur í 9. sæti deildarinnar með 30 stig eftir 20 leiki og er sjö stigum á eftir Liverpool sem situr í 4. sæti með 37 stig.