Meiðsli Joel Matip varnarmanns Liverpool eru ekki eins alvarleg og Jurgen Klopp, stjóri Liverpool taldi í gær. Klopp viðurkennir að hafa farið fram úr sér.
Liverpool vann 3-1 sigur á Tottenham á útivelli í gær en Matip fór meiddur af velli í gær. Fyrir eru Joe Gomez og Virgil van Dijk meiddir.
„Ég fór aðeins fram úr mér eftir leikinn, það eru líkur á að þetta sé ekki svona alvarlegt. Við vitum ekki endanlega útkomu,“ sagði Jurgen Klopp, stjóri Liverpool í dag.
Fabinho verður ekki með Liverpool gegn West Ham um helgina og því er líklegt að Nathaniel Phillips og Jordan Henderson standi vaktina í vörninni.
Klopp viðurkennir að hann ætli að reyna að kaupa miðvörð áður en glugginn lokar á mánudag. „Við munum reyna,“ sagði Klopp.
„Við ætlum að reyna en það er ekkert að segja fyrr en eitthvað gerist. Við sjáum til.“