Kolbeinn Sigþórsson skrifaði í gær undir eins árs samning við IFK Gautaborg í sænsku úrvalsdeildinni.
Kolbeinn rifti samningi sínum við AIK í Svíþjóð fyrir jól þegar ár var eftir af samningi hans. Tíðindin koma blaðamönnum í Svíþjóð nokkuð á óvart enda hafði ekkert heyrst af áhuga Gautaborgar, tíðindin koma því eins og þruma úr heiðskíru lofti.
„Ég er virkilega ánægður að vera hérna, ég hef heyrt góða hluti um félagið. Það er íslenskur kúltúr hérna, samlandar mínir hafa gert vel hérna,“ sagði Kolbeinn við sænska fjölmiðla og á þá við um Ragnar Sigurðssono og Hjálmar Jónsson.
„Gautaborg er stórt félag sem vill gera betri hluti en í fyrra, þeir eru að breyta hlutum og ég vil vera hluti af því.“
Kolbeinn kannast við nokkra leikmenn félagsins sem hann spilaði með í Hollandi. „Ég þekki Pontur Wernbloom sem ég spilaði með í AZ og Tobias Sana sem ég lék með í Ajax. Svo er Hjálmar Jónsson þjálfari U19 ára liðsins.“
„Ég hef ekki verið með félag í mánuð en er í góðu formi, ég er klár í að fara af stað.“
Framherjinn knái hafði fyrir dvöl sína hjá AIK lítið sem ekkert spilað fótbolta í tæp þrjú ár, eftir Evrópumótið í Frakklandi árið 2016 glímdi Kolbeinn við mikið af meiðslum. Hann var síðan settur í frystikistuna hjá Nantes í Frakklandi og fékk ekkert að spila.
Hjá AIK tókst honum ekki að finna sitt besta form, framherjinn sem er alltaf líklegur til þess að skora fyrir íslenska landsliðið átti í vandræðum með að skora hjá AIK. Kolbeinn er þrítugur að aldri og er markahæsti leikmaður í sögu íslenska landsliðsins ásamt Eiði Smára Guðjohnsen.
„Það er fyrir aðra að dæma um hvað klikkaði, það voru meiðsli sem hrjáðu mig og það voru líkar taktískir hlutir. Þetta hefði getað farið öðruvísi, ég er sóknarmaður og Gautaborg vill spila með framherja sem er mikið í leiknum. Ég tel mig geta nýst vel og sýnt hæfileika mína hérna.“
Eftir erfið ár er Kolbeinn með markmið sín á hreinu fyrir næstu árin. „Ég vil að félagið verði ánægt með mig, ég vil að félagið og stuðningsmenn sjái hvað ég er góður og að ég geti hjálpað liðinu.“
„Til lengri tíma þá vil ég spila á HM 2020 með Íslandi, það er draumurinn. Ég missti af HM 2018 vegna meiðsla og það var svekkjandi. Ég er bara þrítugur og hef mikið að gefa, ég vil ná árangri hérna og enda ferilinn á nokkrum góðum árum.“