Jose Mourinho stjóri Tottenham segir að mikilvægur leikmaður í sínu liði hafi meiðst í vikunni, hann neitar hins vegar að gefa upp hver það er.
Tottenham tekur á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í kvöld og má búast við fjörugum leik, Liverpool hefur gengið illa í deildinni síðustu vikur.
„Þetta er erfitt því maður á ekki von á því að leikmaður sem er hvíldur meiðist,“ sagði Mourinho.
„Það er pirringur í mér vegna þess, við fórum í bikarleikinn gegn Wycombe til að vinna hann. Við vorum með sterkt lið og sterkan bekk.“
„Við reyndum að gera okkar besta og missum síðan út leikmann sem byrjaði ekki. Ég segi ekki hver það er. Ég er viss um að þið komist að því.“
Hugo Lloris og Eric Dier voru ekki í hóp gegn Wycombe á mánudag. Harry Kane, Son Heung-min, Pierre-Emile Hojbjerg og Tanguy Ndombele komu inn af bekknum og Sergio Reguilon, Steven Bergwijn og Serge Aurier voru ónotaðir varamenn.