Manchester United fordæmir þá fordóma sem leikmenn félagsins máttu þola á samfélagsmiðlum í gær. Félagið skorar á samfélagsmiðla að herða regluverk sitt til að koma í veg fyrir að nafnlausir einstaklingar geti hagað sér með þesusm hætti.
Anthony Martial og Axel Tuanzebe urðu fyrir kynþáttaníði á samfélagsmiðlum í gær. Manchester United mistókst að endurheimta toppsæti deildarinnar og tapaði óvænt fyrir Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í gær. Kean Bryan kom Sheffield United yfir með marki á 23. mínútu eftir stoðsendingu frá John Fleck.
Harry Maguire, jafnaði leikinn fyrir Manchester United með marki á 64. mínútu eftir stoðsendingu frá Alex Telles. Leikmenn Sheffield United neituðu hins vegar að leggja árar í bát. Oliver Burke tryggði liðinu sigur með marki á 74. mínútu eftir stoðsendingu frá John Lundstram.
Eftir leik fengu Martial og Tuanzebe ljót og niðrandi skilaboð um hörundslit sinn. Búið er að birta fjölda af þeim skilaboðum sem Tuanzebe fékk í gegnum Instagram en hann fékk þau einnig í gegnum Twitter og hefur lokað þeirri síðu sinni.
„Þetta er til skammar, það þarf að komast að því hvaða bjánar þetta eru til að fólk viti það,“ skrifar Rio Ferdinand fyrrum varnarmaður um málið og birtir myndir.
Þar má sjá að N-orðið er notað og þá eru ansi mörg skilaboð með myndum af apa á.