Jesse Lingard, miðjumaður Manchester United, mun ganga til liðs við West Ham United á lánssamningi út tímabilið. The Athletic greinir frá.
Lingard hefur ekki verið í náðinni hjá Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóra Manchester United og fær því tækifæri til að spreyta sig undir fyrrum stjóra félagsins, David Moyes, hjá West Ham.
Talið er að Moyes hafi lagt mikið upp úr því að reyna fá fyrrum leikmann sinn frá Manchester United. Einnig hefur West Ham vantað annan sókndjarfann leikmann eftir að framherjinn Sebastian Haller, gekk til liðs við hollenska liðið Ajax fyrr í mánuðinum.
Talið er að Sheffield United, Newcastle United og West Brom, hafi öll haft áhuga á að fá Lingard til liðs við sig en West Ham virðist ætla hreppa leikmanninn.
Samningur Lingard við Manchester United rennur út árið 2022. Vonir standa til að Lingard nái að festa sig í sessi hjá West Ham svo Manchester United geti selt hann að tímabilinu loknu.