Thomas Tuchel, nýráðinn knattspyrnustjóri Chelsea, greindi frá því á blaðamannafundi í dag að hann hefði fengið skilaboð frá forvera sínum í starfi, Frank Lampard.
Frank Lampard, er goðsögn hjá Chelsea eftir að hafa starfað þar bæði sem leikmaður og knattspyrnustjóri. Tuchel segist skilja vonbrigði sumra stuðningsmanna félagsins með brottrekstur Lampard.
„Ég geri ráð fyrir því að þetta séu stór vonbrigði fyrir stuðningsmenn að sjá Frank Lampard sagt upp störfum. Ég ber mikla virðingu fyrir honum og var mikill aðdáandi hans þegar hann var leikmaður. Það var hrein unun að horfa á hann spila,“ sagði Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea um Lampard.
Tuchel greindi frá því að hann hafi fengið skilaboð frá Lampard eftir að hann tók við störfum sem knattspyrnustjóri Chelsea.
„Ég fékk persónuleg skilaboð frá honum í morgun þar sem hann óskaði mér alls hins besta og að við gætum hist í framtíðinni þegar aðstæður leyfa,“ sagði Tuchel.
Tuchel stýrði sínum fyrsta leik sem knattspyrnustjóri Chelsea í gær er liðið gerði markalaust jafntefli á heimavelli gegn Wolves.