Ekki er öruggt að Pierre-Emerick Aubameyang fyrirliði Arsenal verði með liðinu gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag.
Aubameyang yfirgaf landið til að fara til móður sinnar sem hefur verið að ganga í gegnum erfið veikindi.
Aubameyang hefur misst af síðustu tveimur leikjum Arsenal vegna þess. „Ég talaði við hann í gær og þetta lítur betur út. Hann var að styðja fjölskylduna sína. Ég veit ekki hvort hann þurfi að fara í sóttkví við komuna til Englands,“ sagði Mikel Arteta stjóri liðsins.
Aubameyang hefur greint frá því að móðir hans sé að ná bata. „Ég þakka fyrir allan stuðninginn síðustu daga,“ sagði Aubameyang.
„Móðir mín er veik og ég varð að vera hjá henni, henni er farið að líða betur og ég held heim á leið. Ég er þakklátur öllum þeim læknum sem komu að því að hjálpa henni.“