Það kom Wayne Rooney, knattspyrnustjóra Derby County, ekki á óvart þegar að hann frétti af brottrekstri Frank Lampard frá Chelsea á dögunum. Rooney og Lampard spiluðu á sínum tíma saman með enska landsliðinu.
„Ég var ekki hissa á að heyra að Lampard hefði verið rekinn ef ég á að vera hreinskilinn. Það er augljóslega svona sem staðið er að málum hjá Chelsea. Ég er viss um að Lampard hafi vitað það þegar hann tók að sér starfið,“ sagði Rooney á blaðamannafundi.
Roman Abramovich, eigandi Chelsea, er ekki þekktur fyrir að hafa mikla þolinmæði gagnvart þeim knattspyrnustjórum sem hann ræður til félagsins.
„Síðan Roman Abramovich eignaðist félagið er það augljóst að hann gefur knattspyrnustjórum ekki mikinn tíma til að koma sínum hugsjónum að. Hann krefst árangurs strax og ef það næst ekki, ertu látinn fara,“ sagði Rooney.
Lampard tók við Chelsea árið 2019, Rooney telur að hann hefði átt að fá meiri tíma.
„Hann skilaði góðu verki í fyrra, spilaði á ungum leikmönnum og tryggði liðinu sæti í Meistaradeild Evrópu. Á þessu tímabili fékk hann nýja leikmenn til liðs við félagið sem þurftu tíma,“ sagði Wayne Rooney, knattspyrnustjóri Chelsea.
Brottrekstrar knattspyrnustjóra á þeim tíma sem er liðinn síðan Abramovich eignaðist félagið, hafa orðið til þess að félagið hefur þurft að greiða 110,5 milljónir punda til að borga upp samninga knattspyrnustjóranna.