Chelsea ákvað í gær að reka Frank Lampard úr starfi knattspyrnustjóra og er búist við því að Thomas Tuchel verði ráðinn til starfa í dag.
Gengi Chelsea síðustu vikur hefur verið slakt og hefur Roman Abramovich, eigandi Chelsea tekið ákvörðun um að reka Lampard úr starfi. Chelsea situr í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar, ellefu stigum á eftir toppliði Manchester United. Roman Abramovich lét Lampard fá 200 milljónir punda í leikmannakaup í sumar en árangurinn fylgir ekki með, eigandi Chelsea er ekki þekktur fyrir mikla þolinmæði gagnvart stjórum sínum.
Ensk blöð segja frá því í dag að Lampard hafi fengið símtal snemma í gær og var hann boðaður á fund á æfingasvæði félagsins, fundurinn hófst klukkan 09:00 og fór fram í matsalnum á æfingasvæðinu. Lampard var meðvitaður um hvað væri í vændum þegar símtalið kom, uppsögnin kom honum því ekki á óvart þegar fundurinn fór af stað.
Samningur Lampard hefði átt að renna út í sumar, ákvæði var um að framlengja hann um ár til viðbótar sem Chelsea hafði ekki nýtt sér.
Chelsea þarf að borga Lampard laun fram á sumar en hann fær um 2 milljónir punda í vasa sinn, um 350 milljónir íslenskra króna.