Oliver Stefánsson, leikmaður Norrköping í Svíþjóð hefur þurft að glíma við erfið meiðsli í nára undanfarið. Hann hefur nú náð sér af meiðslunum eftir að hafa hitt sérfræðing í Halmstad. Fjallað er um meiðsli Olivers í Norrköpings Tidingar í dag.
Endurhæfing Olivers hafði ekki gengið sem skyldi allt þar til hann hitti sérfræðing í sænsku borginni Halmstad. Oliver kom sér fyrir á hóteli í borginni og var undir handleiðslu sérfræðingsins næstu tvo mánuðina.
Hann hefur nú náð sér að fullu og getur einbeitt sér að komandi tímum með Norrköping.
Oliver er fæddur árið 2002, hann spilar sem miðvörður og gekk til liðs við Norrköping frá uppeldisfélagi sínu ÍA í janúar árið 2019.
Norrköping er þekkt fyrir að vera félag þar sem Íslendingar hafa blómstrað. Arnór Sigurðsson og Ísak Bergmann Jóhannesson, eru góð dæmi um það.
Nú eru þrír Íslendingar á mála hjá félaginu. Auk Olivers eru þar Finnur Tómas Pálmason og fyrrnefndur Ísak Bergmann.