Jóhannes Eðvaldsson, fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta, er látinn, sjötugur að aldri. Jóhannes gerði garðinn frægan með stórliði Celtic í Skotlandi á áttunda áratugnum og naut mikillar hylli meðal stuðningsmanna liðsins. ruv.is greindi frá.
Jóhannes fæddist í Vestmannaeyjum árið 1950, hann lék lengst af með Val. Hann reyndi einnig 22 ára gamall fyrir sér í atvinnumennsku í Suður-Afríku með Cape Town City í Höfðaborg.
Eftir stutta dvöl hjá Metz í Frakklandi og svo Holbæk í Danmörku gekk Jóhannes til liðs við Celtic í Skotlandi árið 1975.
Jóhannes spilaði í fimm farsæl ár með skoska stórliðinu. Hann skoraði 36 mörk á ferli sínum hjá Celtic í 188 leikjum og þótti afar fjölhæfur leikmaður sem gat leyst flestar stöður á knattspyrnuvellinum.
Hjá Celtic vann Jóhannes tvo Skotlandsmeistaratitla og einn bikarmeistaratitil. Hann hélt svo til Bandaríkjanna árið 1980. Jóhannes lék einnig með Hannover 96 í Þýskalandi og Motherwell í Skotlandi áður en atvinnumannaferli hans lauk árið 1984.
Jóhannes lék 34 landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim tvö mörk. Hann var bróðir Atla Eðvaldssonar, fyrrverandi landsliðsfyrirliða, en Atli lést árið 2019. Jóhannes lætur eftir sig eiginkonu, Catherine Bradley, og fjögur börn.