Adebayo Akinfenwa er nokkuð þekktur knattspyrnumaður ef tekið er mið af því að hann spilar fyrir neðri deildar lið á Englandi. Akinfenwa, sem er framherji, er þekktur fyrir styrk sinn á velli og hefur verið kallaður ‘Skepnan (The Beast).’
Hann verður 39 ára í maí og hyggst spila þangað til hann verður 40 ára en það er ekki eingöngu vegna ástar hans á knattspyrnu. Hann er fimm barna faðir og hefur þurft að glíma við þrálát meiðsli á sínum knattspyrnuferli. Það varð til þess að hann óttaðist að geta ekki séð fyrir börnum sínum.
„Ég berst áfram í gegnum sársaukann af meiðslunum og nýti hann til þess að ýta mér áfram af því að ég hræðist það að geta ekki séð fyrir fjölskyldu minni. Ef ég hefði unnið í lottóinu væri ég ábyggilega liggjandi á strönd einhvers staðar,“ sagði Akinfewa í viðtali.
Hann segir að það sé mikil rangfærsla að allir þeir sem spili atvinnumannaknattspyrnu þéni mikið og þurfi ekki að hafa áhyggjur af fjárhag sínum.
„Aðeins lítill hluti þénar mikla peninga og þegar að þeir leikmenn verða 35 ára, þurfa þeir ekki að vinna meir. En fyrir okkur neðri deildar leikmenn er þetta ekki þannig,“ sagði Akinfewa.
Akinfenwa verður í eldlínunni með liði sínu Wycombe, þegar að það mætir Tottenham í enska bikarnum á mánudaginn.