Manchester United tekur á móti Liverpool í enska bikarnum á morgun. Liðin hafa oft eldað grátt silfur sín á milli og eftir markalaust jafntefli í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni á dögunum verður fróðlegt að sjá hvernig leikur morgundagsins endar.
Hinn hávaxni Peter Crouch, fyrrverandi leikmaður Liverpool, rifjar upp í pistli á Daily Mail, þegar að hann tryggði Liverpool sigur á Manchester United í bikarnum árið 2006.
Í þeim leik var Crouch blóðgaður af Nemanja Vidic, varnarmanni Manchester United en skoraði einnig sigurmark leiksins og tryggði Liverpool áfram í næstu umferð keppninnar.
„Í hvert skipti sem ég horfi í spegilinn og sé örið sem fylgir mér eftir viðskipti mín við Vidic, fer ég að brosa,“ skrifar Crouch í pistlinum.
Crouch er á því að leikir Manchester United og Liverpool séu þeir stærstu í heiminum.
„Ég get fullvissað ykkur um að það skiptir ekki máli hvort leikvangurinn sé tómur eða ekki, þetta eru leikirnir sem skapa goðsagnir,“ skrifaði Crouch.
Leikur Manchester United og Liverpool fer fram á Old Trafford, heimavelli United og hefst klukkan 17:00.