Oft hafa komið uppi aðstæður í knattspyrnuheiminum þar sem leikmenn ganga til liðs við félög sem teljast sem helstu keppinautar liðanna sem leikmenn studdu í æsku.
Roy Keane hélt til að mynda með Tottenham í æsku en gekk síðan til liðs við Manchester United og spilaði þar við góðan orðstír.
„Ég ólst upp á Írlandi og þar varstu annað hvort stuðningsmaður Manchester United, Liverpool eða Celtic. Ég studdi hins vegar Tottenahm,“ sagði Keane.
Harry Kane, framherji Tottenham, var stuðningsmaður erkifjenda félagsins í Arsenal, þegar hann var yngri. Til eru myndir af leikmanninum í Arsenal treyju með hárgreiðsli sem minnti mikið á hárgreiðslu Freddie Ljungberg, sem var leikmaður Arsenal.
Kane er hins vegar gallharður Tottenham maður í dag og er nú þegar orðin goðsögn hjá félaginu.
Kevin De Bruyne, leikmaður Manchester City var mikill stuðningsmaður Liverpool á sínum uppeldisárum. Liðin hafa barist hart á undanförnum tímabilum í ensku úrvalsdeildinni. De Bruyne átti Liverpool sængurföt og treyju sem var merkt Michael Owen, framherja liðsins.
John Terry, fyrirliði Chelsea til margra ára og goðsögn í sögu félagsins, var ekki alltaf stuðningsmaður Chelsea. Þegar hann var yngri, studdi Terry nefnilegast Manchester United.
„Ég hélt með Manchester United þegar að ég ólst upp. Þið vitið hvernig þetta er þegar maður er yngri, maður vill styðja liðið sem er að vinna allt. Að auki voru pabbi og afi minn, stuðningsmenn Manchester United,“ sagði Terry í viðtali eitt sinn.
Gareth Bale, sem nú er á láni hjá Tottenham frá Real Madrid, var mikill stuðningsmaður Arsenal sem barn.
„Ég horfði mikið á Arsenal og naut þess mikið að horfa á leikmenn eins og Henry og Bergkamp. Þetta var frábært lið. Stuðningsmenn Tottenham verða ekki ánægðir með mig fyrir að segja þetta,“ sagði Bale.