Ragnar Sigurðsson landsliðsmaður í knattspyrnu er mættur til Úkraínu og er spenntur fyrir nýrri áskorun á ferli sínum. Miðvörðurinn sem er 34 ára gamall, skrifaði undir samning sem gildir út tímabilið Rukh Vynnyky frá borginni Lviv. Liðið leikur í efstu deild þar í landi.
Ragnar yfirgaf FC Kaupmannahöfn á dögunum en þar hafði hann leikið í tæpt ár, þetta var í annað sinn sem þessi öflugi varnarmaður spilar fyrir félagið.
„Það fór ekkert eins og ég hafði hugsað mér eða vonast eftir hjá FC Kaupmannahöfn. Ég var ekki í neitt svakalega góðu formi þegar ég kom til Kaupmannahafnar og strax í fyrstu æfingaferðinni tóku sig upp einhver smávægileg meiðsli hjá mér,“ segir Ragnar við Bjarna Helgason á Morgunblaðinu.
COVID-19 veiran hafði líka áhrif á Ragnar og eiginkona hans sem er frá Rússlandi. Hún gekk með barn þeirra undir belti en sat föst í Rússlandi og Ragnar var síðan í Danmörku. „Svo var öllu skellt í lás í Rússlandi þar sem konan mín var kasólétt og hún sat því föst í Moskvu. Hún mátti ekki einu sinni heimsækja móður sína í Volgograd og það var allt lokað í Danmörku líka. Einhvern veginn tókst mér samt að koma henni til Íslands þar sem fjölskylda mín og vinir gátu stutt við bakið á henni,“ sagði Ragnar við Morgunblaðið.
View this post on Instagram
Á meðan unnusta hans var mætt til Íslands var Ragnar hins vegar fastur í Kaupmannahöfn. „Ég var virkilega stressaður yfir þessu öllu saman og missti til að mynda af fæðingu dóttur minnar sem bæði tók á og sat í mér,“ segir Ragnar um þessa erfiðu upplifun.
Ragnar náði fínum spretti með FCK síðasta sumar en undir það síðasta fékk hann fá tækifæri og ákvað að fara til Úkraínu. „Ég sneri svo aftur í liðið þegar ég var orðinn heill heilsu og fékk sem dæmi tækifæri gegn Celtic í Evrópudeildinni en meiddist svo strax aftur. Ég náði einhvern veginn aldrei upp neinum takti né að byggja mig almennilega upp. Á sama tíma hef ég alltaf á mínum knattspyrnuferli getað spilað bara heilar 90 mínútur, líka eftir gott sumarfrí eða hlé, þannig að aldurinn er greinilega aðeins farinn að segja til sín hjá manni. Þegar allt kemur til alls er líka erfitt að vera mótiveraður þegar það er ekkert nema vesen í gangi í kringum mann og ég einfaldlega hugsaði ekki nægilega vel um bæði líkamann og andlegu hliðina.“