Í vikunni missti Þróttur Reykjavík einn sinn besta og efnilegasta leikmann, Oliver Heiðarsson. Um er að ræða leikmann sem stóð sig afar vel á erfiðu tímabili í Laugardalnum í fyrra en hann er nú genginn við Pepsi Max-deildar liðið FH.
Þróttur fékk ekki krónu fyrir leikmanninn þar sem hann nýtti sér ákvæði í samning sínum sem gerði honum kleift að ganga til liðs við FH. Þróttarar eru að vonum svekktir með að leikmaðurinn sé farinn en kannski enn svekktari með að hafa ekki fengið krónu með gati fyrir hann.
„Glatað að missa svona mann frá okkur“
Jón Ólafsson, tónlistarmaður og einn harðasti Þróttari landsins, deildi færslu um skiptin í stuðningsmannahóp Þróttara í vikunni. „Grautfúlt,“ sagði Jón. „Vonandi er þetta undantekning. Að ungur og uppalinn leikmaður geti labbað í burtu án þess að uppeldisfélagið fái krónu fyrir. Óska honum þó alls hins besta. Oliver hefur margt til brunns að bera.“
Aðrir grjótharðir stuðningsmenn Þróttar taka undir með Jóni. „Glatað að missa svona mann frá okkur,“ segir einn stuðningsmaður. „Óþolandi og ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist. Auðvitað eigum við að fá eitthvað fyrir okkar snúð,“ segir leikarinn Halldór Gylfason.
„Gangi þér vel Oliver“
Stuðningsmenn Þróttar, eða Köttararnir eins og þeir eru oft kallaðir, eru þó ekki pirraðir út í Oliver sjálfan, enda um gott skref fyrir hann að ræða þegar kemur að ferlinum. „Eðal eintak af manni hann Olli, vonandi er þetta bara eitt skref í áttina að einhverju miklu stærra hjá honum!“ segir einn Köttari.
„Hann kemur svo vonandi til baka á lokastigum ferilsins og miðlar reynslunni áfram til ungu Þróttaranna sem verða komnir upp þá! Gangi þér vel Oliver, maður mun styðja FH smá ……. þegar þú ert inná!“
„Leiðin liggur bara upp á við“
DV ræddi við Kristján Kristjánsson, varaformann Þróttar og fjölmiðlamann, um félagsskipti Olivers. „Við vildum halda honum og gerðum það alveg ljóst, margsinnis. Það var enginn vafi hjá okkur að við vildum sjá hann áfram í Þróttarabúningnum,“ sagði Kristján í samtali við blaðamann.
Kristján segir að hann og aðrir Þróttarar séu mjög spenntir fyrir sumrinu, sérstaklega í ljósi þess að nú er búið að heimila keppnisíþróttir á nýjan leik. „Við erum búnir að vera að vinna hörðum höndum að því að undirbúa okkur, bæði karla- og kvennamegin. Það er enginn bilbugur á okkur, við ætlum ekki neðar – það er ekki hægt. Leiðin liggur bara upp á við, það er eina vitið og eina leiðin sem hægt er að fara héðan af.“