„Eins og fram kom á upplýsingafundi Almannavarna í dag er nú til skoðunar að gefin verði heimild til að hefja leik í knattspyrnu að nýju,“ segir í tilkynningu KSÍ og bætt er við að undirbúningur sé hafinn svo hægt verði að hefja keppni að nýju á föstudaginn. „Það er þó áréttað að enn sem komið er hefur sóttvarnarlæknir ekki lagt fram minnisblað þess efnis og því síður hefur það verið staðfest af heilbrigðisráðherra.“
Með tilkynningunni birtir KSÍ drögin að reglunum sem sjá má hér. Þar segir meðal annars að aðrir en leikmenn eigi að notast við grímur og að halda þurfi tveimur metrum á milli manna. „Ítrekað er að enn gætu einstök atriði í reglunum átt eftir að taka einhverjum breytingum og nauðsynlegt verði að skerpa á einstökum atriðum. Það er hins vegar mikilvægt að aðildarfélög kynni sér sem allra fyrst þessi drög og hefji undirbúning að innleiðingu nú þegar“