,,Ég hef starfað við þetta í mörg ár og ég ætla að ná alla leið í þessu. Ég hafði staðið mig vel í þessu starfi hjá Gróttu , ég verð að bjarga mannorði mínu. Það komu hótanir frá þeim, um að ég eigi ætti ekki að leita réttar míns eða ræða við fjölmiðla, það lítur ekki vel út fyrir mig að missa starfið í janúar og enginn veit hvers vegna. Þess vegna vil ég segja frá þessu, þessar hótanir hafa tekið á mig,“ segir Kristján Daði Finnbjörnsson, fyrrum þjálfari hjá yngri flokkum Gróttu. Hann segir farir sínar við félagið ekki sléttar, á honum hafi verið brotið þegar honum var vikið úr starfi í janúar. Kristján segist aldrei hafa fengið útskýringar á því hvaða brot hann hafi framið.
Óhæfur fyrir suma en ekki alla
Kristján þjálfaði 6. , 5. og 4. flokk karla hjá Gróttu, hann var ráðinn til starfa aftur síðasta haust. Kristján hefur ýmis gögn er varðar málið á sínum höndum, þar kemur meðal annars fram í einu bréfi frá Gróttu að félagið vildi losa hann úr starfi hjá 4. flokki en halda honum í starfi í öðrum flokkum. Í 4. flokki Gróttu eru synir tveggja stjórnarmanna hjá félaginu, faðir annars þeirra er Birgir Tjörvi Pétursson, formaður knattspyrnudeildar. Birgir vildi ekki ræða við blaðamann um málið . ,,Þetta á sér tveggja vikna aðdraganda, þessir tveir drengir höfðu alltaf verið í hóp hjá A-liði. Eftir áramót voru synir þessara tveggja aðila að haga sér verr en áður, annar þeirra var mjög dónalegur og með stæla við aðra stráka í flokknum. Hann var að lítillækka samherja sína, ég sendi á mömmu hans og vildi leysa þetta. Ég fékk engin svör, þetta er á föstudegi og eftir helgi var mér vikið úr starfi. Mér var vikið úr starfi á mánudegi, degi áður höfðu synir þessara aðila ekki verið í A-liði, í fyrsta sinn,“ segir Kristján og er greinilega mikið niðri fyrir.
Vilja ekki ræða málið við fjölmiðla:
Forráðamenn Gróttu vilja lítið ræða málið, eins og fyrr segir gat Birgir Tjörvi ekki svarað spurningum blaðamanns en lét Kára Garðarsson, framkvæmdarstjóra félagsins svara. ,,Við vildum ljúka þessu í sátt, þetta er flókið í starfsmannamálum að ræða það við fjölmiðla. Við erum bundin trúnaði,“ sagði Kári.
Kári kveðst ekki hafa setið fundinn þar sem uppsögn Kristjáns var rædd. „Ég var nú reyndar ekki á þessum fundi, ástæða starfsloka hans var ófagmannleg framkoma við marga hlutaðeigandi. Það urðu samstarfsörðugleikar, það er ástæða uppsagnarinnar. Við reyndum að leita lausna með honum.“
Þegar Kári var spurður út í bréf félagsins, þar sem kemur fram að Kristján taldist hæfur fyrir suma en ekki alla, svaraði hann. ,,Ég get ekki tjáð mig um þennann hluta.“
Rætnar sögur:
Kristján kveðst svekktur að hafa ekki fengið útskýringar frá félaginu um uppsögn sína. „Ég virði alveg að menn nýti sín völd, ég hefði þá viljað fá útskýringar og að þeir myndu borga uppsagnarfrest. Ekki að tala í hringi og segja eitthvað annað en það sem gerðist í raun og veru. Það kom ekki nein útskýring,“ segir Kristján sem sakar stjórnarmenn félagsins um að dreifa rætnum og ósönnum sögum um sig til foreldra.
Hann segist hafa farið á nokkra fundi með Gróttu, málið hafi síðan ratað til aðalstjórnar félagsins þar sem honum hafi ítrekað verið hótað, meðal annars að þiggja greiðslu og fara ekki með málið lengra. Hann vildi leita lausna og segist hafa hringt í formann knattspyrnudeildar. „Ég hringdi í Birgi Tjörva með hugmynd að lausn. Hann byrjaði með læti, hljómaði grimmur. Hann tjáði mér að knattspyrna væri lifibrauð mitt, ég þyrfti að passa hvaða hluti ég léti frá mér. Hann gæti stigið til hliðar sem formaður, að hann hefði lögmannsstarf sem væri hans lifibrauð. Ég tjáði honum að ég hefði engu að tapa, að hann væri að reyna að rústa mannorði mínu og ég ætlaði að verja mína hagsmuni.“
Kristján segir uppsögn sína ólöglega og íhugar að lögsækja félagið. „Það endar þannig ef það kemur ekkert frá þeim, þá hef ég ekkert val. Ég hefði viljað heyra eitthvað frá þeim.“