Yfirvöld á Ítalíu hafa bannað alla íþróttakappleiki fram í byrjun apríl, er þetta vegna COVID-19 veirunnar.
Veiran hefur herjað all hressilega á Ítalíu og hefur fjöldi fólks látið lífið. Smit frá Ítalíu hafa borist hingað til lands.
Emil Hallfreðsson og Birkir Bjarnason, leikmenn íslenska landsliðsins leika báðir á Ítalíu. Mikilvægir landsleikir eru í lok mánaðar. Eftir 17 daga leikur Ísland við Rúmeníu í undanúrslitum um laust sæti á EM, fimm dögum síðar gæti verið úrslitaleikur við Búlgaríu eða Ungverjaland.
433.is hefur fengið staðfest frá KSÍ að vonir standi til um að Birkir og Emil komi til landsins á morgun, þeir þurfa að fara í 14 daga sóttkví og geta því hafið æfingar, tveimur dögum fyrir leikinn gegn Rúmeníu.
KSÍ er í sambandi við Brescia sem Birkir leikur með og Padova þar sem Emil spilar. KSÍ vonast til að fá grænt ljós á næstu klukkustundum til að koma þeim heim.
Emil og Birkir munu geta farið út að hlaupa og gætu einnig sparkað í bolta en verða að vera einir, vegna veirunnar. Þetta munu þeir gera til að halda sér í formi fyrir landsleikina.