Harpa Þorsteinsdóttir hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna 33 ára gömul en hún hefur staðfest þetta.
Harpa var frábær leikmaður hér á landi á ferlinum en hún var gestur í hlaðvarpsþættinum Heimavöllurinn á Fótbolta.net í dag.
Þar greindi Harpa frá því að hún ætti von á sínu þriðja barni og hefur hún ákveðið að leggja skóna á hilluna líklega fyrir fullt og allt.
Harpa hefur þurft að glíma við ýmislegt á ferlinum og ræddi mögulega það versta í viðtali við Stöð 2 Sport í dag.
Þá rifjaði Harpa upp þegar hún var harðlega gagnrýnd fyrir að spila bæði með Stjörnunni og landsliðinu ófrísk.
,,Það var svona með mest krefjandi tímabilum á mínum ferli, að bæði þurfa svara fyrir eitthvað sem kom mér á óvart að þurfa svara fyrir og svo bara fékk ég alls konar skilaboð og skrítin ummæli, maður er að ganga með barn og það er verið að ýja að því sem er ekki því fyrir bestu,“ sagði Harpa.
Harpa viðurkennir að þessir tímar hafi verið mjög erfiðir en hún hafði aldrei upplifað eins gagnrýni fyrr á ferlinum.
,,Það var það versta í þessu, þá þarf maður pínu að setja á sig aðra gríma og tækla það með einhverjum brögðum sem ég hafði ekki þurft að nota fyrr. Auðvitað sárnaði manni og þetta var erfitt því sumarið hafði verið frábært.“
Það sem fólk áttaði sig ekki á var að Harpa og maðurinn hennar höfðu lengi reynt að eignast þetta barn og var landsliðið og EM ekki í fyrsta sæti á þeim tíma.
,,Ég var búin að leggja mikið á mig til að eignast þetta barn og fólk var að ýja að því að ég væri ekki að gera það sem væri því fyrir bestu. Mig langaði að kalla að fólk hefði ekki hugmynd um hvað ég væri búin að ganga í gegnum og sömuleiðis þá hafði gengið vel í undankeppninni með landsliðinu.“
,,Fólk hugsaði: ‘Hvað ertu að spá að eignast barn núna það er EM eftir!’ – Við vorum búin að reyna að eignast barn í fjögur ár eða eitthvað. Þetta var krefjandi þegar fólk hafði skoðanir, ég hugsaði enn til fræga fólksins í Hollywood þar sem fólk hefur alltaf skoðun á því sem þú gerir.“