fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
433Sport

Upplifir æskudrauminn: „Á erfiðari tímum sér maður þetta í öðru ljósi“

Aron Guðmundsson
Fimmtudaginn 31. desember 2020 18:30

Arnór í leik með CSKA Moskvu. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hinn 21 árs gamli Arnór Sigurðsson er einn efnilegasti knattspyrnumaður Íslands. Hann fór aðeins 17 ára gamall frá ÍA á Akranesi, til sænska liðsins Norrköping, þar sem hann gat sér gott orð. Hann vakti seinna athygli hjá stærri liðum í Evrópu, sem endaði með því að hann samdi við stærsta lið Rússlands, CSKA Moskvu.

Fyrsta tímabil Arnórs hjá CSKA Moskvu gekk eins og í sögu. Hann var reglulegur byrjunarliðsmaður og átti frábæra frammistöðu með liðinu. Meðal annars gegn spænska stórliðinu Real Madrid í Meistaradeild Evrópu, þar sem hann skoraði og átti stoðsendingu í fræknum sigri. Það hefur hins vegar aðeins hallað undan fæti á yfirstandandi tímabili og hefur Arnór þurft að sætta sig við meiri bekkjarsetu en hann er vanur.

„Þegar hlutirnir gerast svona hratt og það gengur vel í byrjun, þá kemur auðvitað pressa með því og það eru gerðar væntingar til manns. Það er gott því þannig vill maður hafa það en tímabilið núna hefur ekki spilast alveg eins og maður hefði viljað. Það koma góðir tímar og slæmir tímar í þessu. Ég held að það sé eitthvað sem allir knattspyrnumenn ganga í gegnum.“

Hann er hins vegar með báða fætur á jörðinni og lætur mótlætið ekki sigra sig.

„Ég hef verið svolítið inn og út úr liðinu á þessu tímabili en það hefur samt sem áður gengið vel þegar ég fæ tækifæri í byrjunarliðinu. Ég hef verið að skila mínu inni á vellinum. Það er að sjálfsögðu pirrandi að detta út úr byrjunarliðinu þegar manni finnst maður ekki eiga það skilið, en svona er fótboltinn og maður verður að vera jafn mikið fókuseraður þegar það gengur illa hjá manni og þegar gengur vel. Ég vil gera betur og vil fá að spila meira og vinn að því á hverjum degi.“

Fékk traustið í Svíþjóð
Arnór hóf sinn atvinnumannaferil hjá sænska liðinu Norrköping. Þar fékk hann að þróa sinn leik áfram í góðu umhverfi þar sem hann naut mikils trausts.

„Þjálfari Norrköping var stór ástæða þeirra framfara sem ég tók á þessum tíma. Hann er frábær í því að vinna með ungum leikmönnum og tók mig snemma að sér og lét mig vita hvernig hann sæi mig fyrir sér í liðinu og til hvers hann ætlaðist af mér. Ég fékk traust og spiltíma hjá Norrköping og hlutirnir gengu upp hjá mér. Það varð til þess að ég gat síðan tekið næsta skref á ferlinum hjá CSKA Moskvu.“

Reynsla Norrköping af Íslendingum er góð. Arnór, sem er fæddur og uppalinn á Akranesi, sló í gegn þar og nú er annar Skagamaður að feta í hans fótspor hjá félaginu. Hinn 17 ára gamli Ísak Bergmann Jóhannesson er fastamaður í sænska liðinu og það gleður Arnór að sjá hann blómstra undir sama þjálfara og hann hafði hjá Norrköping.

„Ég og Ísak höfum þekkst síðan úr æsku. Hann er góður vinur litla bróður míns og mig minnir meira að segja að ég hafi verið að þjálfa hann á einhverjum tímapunkti. Það er auðvitað mjög gaman að sjá hversu vel hann er að standa sig. Ég hef alltaf verið meðvitaður um að hann gæti náð langt og það er ótrúlega gaman að sjá hann standa sig svona vel hjá mínu gamla félagi og ennþá skemmtilegra að hann sé að spila í sama treyjunúmeri og ég hafði hjá félaginu.“

Arnór segir að það sé margt líkt með vegferð hans og Ísaks Bergmanns.

„Sagan er nánast að endurtaka sig núna með Ísak Bergmann. Hann fékk traustið og hefur verið að spila vel. Þetta sýnir það bara svart á hvítu hversu miklu máli það skiptir að ungir og efnilegir leikmenn séu í rétta umhverfinu og með góða leiðsögn. Það gerir gæfumuninn.“

Heiður að spila fyrir Ísland
Arnór hefur spilað með öllum yngri landsliðum Íslands og á einnig að baki 11 A-landsleiki. Hann fyllist stolti í hvert einasta skipti sem hann er valinn í landsliðið.

„Það er alltaf heiður að vera valinn í landsliðið og ég er mjög stoltur af því að fá tækifæri til þess að leika fyrir Íslands hönd og með þessari gullkynslóð leikmanna sem allir þekkja. Það eru forréttindi að spila með þeim.“

Íslenska landsliðið hefur verið að ganga í gegnum sitt besta tímabil í sögu landsliðsins undanfarin ár og því erfitt fyrir nýja og unga leikmenn að komast inn í byrjunarliðið. Arnór segist hins vegar hafa lært mikið af leikmönnum liðsins.

„Ég hef lært ótrúlega mikið á því að vera hluti af þessum leikmannahóp sem myndar landsliðið hverju sinni. Þarna eru miklir karakterar og leiðtogar eins og Kári Árnason og Aron Einar Gunnarsson. Það hefur kennt mér mikið að fylgjast með þeim og vera í kringum þá í þessum mikilvægu leikjum.“

Arnór hlakkar til komandi verkefna með landsliðinu og er með sín markmið klár.

„Ég er mjög spenntur fyrir næstu undankeppni með landsliðinu. Ég er tilbúinn í að taka að mér stærra hlutverk með landsliðinu en ég átta mig líka á því að liðið hefur verið að gera frábæra hluti undanfarin ár og þess vegna er ég þolinmóður.“

Hann gefur lítið fyrir vangaveltur sumra um að tími sé kominn á stórfelldar breytingar í landsliðinu.

„Það er auðvitað alltaf markmið að vinna sér fast sæti í landsliðinu. Það hefur verið talað um möguleg kynslóðaskipti í liðinu en megnið af landsliðshópnum er í kringum þrítugt og það er enginn aldur. Þetta er í raun aldur þar sem leikmenn geta verið að toppa. Það hefur verið mikið talað um að einhverjir leikmenn séu komnir á endastöð en það er bara alls ekki rétt.“

Erik Hamrén, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands og aðstoðarmaður hans, Freyr Alexandersson, létu af störfum eftir að liðinu mistókst að tryggja sér sæti á Evrópumótinu á næsta ári. Arnór er ánægður með störf þeirra.

„Ég hef bara góða hluti að segja um Hamrén og Frey. Þeir voru mjög flottir og miklir fagmenn. Ég átti í góðum samskiptum við þá báða. Þetta verkefni sem þeir tóku að sér með landsliðinu var fyrirfram erfitt og síðan spilast inn í meiðslavandræði leikmanna. Við vorum bara hársbreidd frá því að komast á Evrópumótið og það sýnir bara hversu góða hluti þeir gerðu með liðið. Við leikmennirnir erum bara ánægðir með þeirra störf og þakklátir fyrir þeirra framlag.“

Er að upplifa æskudrauminn
Það hefur verið markmið Arnórs frá því í barnæsku að verða atvinnumaður í knattspyrnu. Hann tekur þessu starfi sínu ekki sem sjálfsögðum hlut.

„Það eru forréttindi að fá tækifæri til þess að vinna við það sem manni finnst skemmtilegt að gera. Þetta hefur verið draumur minn frá því í barnæsku. Ég komst fljótt að því þegar ég hélt út til Svíþjóðar að þetta ferli væri langhlaup. Ég hef fundið mikinn meðbyr síðastliðin ár og mér hefur gengið vel.“

Arnór er með báða fætur á jörðinni og þótt hann væri til í að vera spila meira núna þá veit hann að hann getur tekist á við komandi verkefni.

„Ég er kannski að eiga við aðeins erfiðari tíma núna, á erfiðari tímum sér maður þetta í öðru ljósi. Ég er þakklátur fyrir það á hverjum degi að fá að spila knattspyrnu á þessu stigi og að hafa það sem atvinnu mína. Ég er bara 21 árs og er nú þegar búinn að fá tækifæri til að spila í Meistaradeild Evrópu, Evrópudeildinni og með landsliðinu. Ef mér hefði verið sagt fyrir tíu árum að þetta yrði staðan, þá er ég ekki viss um að ég hefði trúað því að ég væri búinn að ná svona langt á þessum tímapunkti.“

Mun skoða stöðu sína varðandi næstu skref
Árið 2020 hefur skorið sig úr sökum COVID-19 faraldursins, faraldurinn hefur þó ekki haft eins mikil áhrif á Arnór samanborið við kollega hans á Englandi svo dæmi sé nefnt.

Deildin hérna í Rússlandi stoppaði um stund á síðasta tímabili vegna COVID-19. Þá hélt maður bara heim á leið til Íslands og eyddi tíma þar. Rússland hefur samt verið eitt af fáum ríkjum sem hafa leyft áhorfendur á knattspyrnuvöllunum í gegnum faraldurinn og það hefur verið lítið um lokanir hérna úti. Þetta eru skrýtnir en jafnframt áhugaverðir tímar.“

Arnór skrifaði undir nýjan samning við CSKA Moskvu árið 2018 og á tvö og hálft ár eftir af samningi sínum þar. Hann viðurkennir hins vegar að hann sé farinn að íhuga stöðu sína hjá félaginu.

„Það er alveg ljóst að ég mun skoða mína stöðu hjá félaginu á næstu vikum. Ég hef ekki verið nægilega sáttur við stöðu mína hjá CSKA Moskvu undanfarið. Ég mun líta í eigin barm og skoða þetta allt saman út frá því hvað ég tel vera best fyrir mig og minn knattspyrnuferil. Hvort sem það verður áfram hjá CSKA Moskvu eða í nýju umhverfi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Í gær

Andri framlengir í Garðabæ

Andri framlengir í Garðabæ
433Sport
Í gær

Breiðablik staðfestir kaup á Ágústi frá Genoa

Breiðablik staðfestir kaup á Ágústi frá Genoa