Berglind Rós Ágústsdóttir, sem verið hefur fyrirliði kvennaliðs Fylkis í knattspyrnu undanfarin ár, hefur komist að samkomulagi við sænska úrvalsdeildarfélagið Örebro um að leika með liðinu.
Berglind heldur utan í byrjun næsta árs og hefur því leikið sinn síðasta leik fyrir .Fylki
Berglind, sem er fædd árið 1995, gekk til liðs við Fylki haustið 2016 frá Val og hefur frá þeim tíma leikið 105 leiki fyrir félagið, þar af 77 leiki í Íslandsmóti og bikar.
„Berglind hefur verið félaginu mikill happafengur innan sem utanvallar en hún hefur m.a. verið valin leikmaður ársins af leikmönnum félagsins árin 2017, 2018 og 2019 og íþróttakona Fylkis 2018. Þá var hún fyrr á þessu ári valin í A-landsliðið í fyrsta sinn, en hún tók þátt í Pinatar-bikarnum á Spáni með liðinu í mars,“ segir á vef Fylkis.