„Mjög sorglegar fréttir: Paolo Rossi er ekki lengur meðal okkar,“ tísti Enrico Varriale, þulur hjá RAI Sport, í morgun. „Ógleymanlegur Pablito sem við urðum öll ástfangin af sumarið 1982 og hefur verið dýrmætur og góður starfsfélagi hjá RAI síðustu ár. Hvíl í friði elsku Paolo,“ skrifaði hann einnig.
Eiginkona Rossi, Cappelletti Federica, birti mynd af sér og Rossi á Instagram skömmu eftir að tilkynnt var um andlát hans en sagði ekkert um dánarorsökina.
Rossi er almennt talinn einn af bestu framherjum allra tíma og fáir hafa gleymt afrekum hans á HM 1982 sem fór fram á Spáni. Í úrslitaleiknum á móti Vestur-Þýskalandi skoraði hann fyrsta markið og á fyrri stigum keppninnar skoraði hann þrennu á móti Brasilíu. Rossi var markahæsti leikmaður úrslitakeppninnar og fékk einnig Golden Ball og Ballon d‘Or þetta sama ár.
En ferill Rossi var ekki alveg hnökralaus. 1980 var hann dæmdur í þriggja ára bann eftir að upp komst að samið hafði verið um úrslit í leik Perugia, þar sem hann lék sem lánsmaður, og Avellino. Mafían kom þar við sögu. Rossi þvertók fyrir aðild að málinu og leikbannið var stytt í tvö ár og byrjaði hann aftur að spila tveimur mánuðum fyrir HM og rétt náði því að vera með í lokakeppninni.
Hann lék allan sinn feril á Ítalíu og sigraði tvisvar í deildakeppninni og í Evrópukeppninni með Juventus 1984.