Ítalska knattspyrnufélagið Napoli hefur breytt nafninu á heimavelli sínum til heiðurs Diego Maradona, knattspyrnugoðsögninni sem lést á dögunum.
Heimavöllur Napoli bar nafnið Stadio San Paolo fyrir breytinguna en ber nú nafnið Stadio Diego Armando Maradona. Breytingartillagan þurfti að bara fyrir borgarráð Napoliborgar og hún var samþykkt þar með öllum greiddum atkvæðum.
Maradona er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Napoli. Hann gekk til liðs við félagið eftir dvöl hjá spænska stórliðinu Barcelona árið 1984.
Hjá Napoli vann Maradona ítölsku úrvalsdeildina tvisvar sinnum, ítalska bikarinn einu sinni og árið 1989 leiddi hann liðið til sigurs í Uefa Cup.
Maradona spilaði 188 leiki fyrir ítalska félagið og skoraði 81 mark í þeim leikjum.