Hjörvar Hafliðason stjórnandi Dr. Football telur að KSÍ sé búið að ráða Arnar Þór Viðarsson sem næsta landsliðsþjálfara. Arnar var í löngu viðtali við útvarpsþátt Fótbolta.net á X977 um helgina þar sem hann staðfesti áhuga sinn á starfinu.
Arnar hefur vakið athygli í starfi U21 landsliðsþjálfara og sem yfirmaður knattspyrnumála. „Ég ætla að ganga svo langt og segja, Arnar Þór Viðarsson er nýr landsliðsþjálfari Íslands,“ sagði Hjörvar í þætti sínum í dag.
Arnar hefur mest verið orðaður við starfið eftir að Erik Hamren ákvað að láta af störfum eftir að hafa mistekist að koma liðinu í lokakeppni Evrópumótsins.
Erik Hamren lét af störfum í síðustu viku en Arnar kom U21 landsliðinu inn í lokakeppni EM, hann gæti ekki fylgt liðinu í lokakeppnina ef hann fær starf A-landsliðsþjálfara.
Arnar var ráðinn inn í starf yfirmanns knattspyrnumála eftir að hann tók við U21 liðinu, starfið var eitt af því sem Guðni Bergsson formaður KSÍ barðist hart fyrir.