Katrín Ómarsdóttir hefur skrifaði undir tveggja ára samning sem aðstoðarþjálfari kvennaliðs KR. Katrín, sem er 33 ára, hefur spilað 119 leiki í efstu deild hérlendis og skorað í þeim 40 mörk. Hún á einnig að baki 69 landsleiki þar sem hún skoraði 10 mörk.
Katrín hefur spilað með KR síðastliðin fjögur tímabil. Hún spilaði einnig með KR frá 2001 til 2009 þegar hún fór í atvinnumennsku. Erlendis spilaði Katrín meðal annars með Liverpool.
Í tilkynningu sem KR sendi frá sér í dag segir að knattspyrnudeildin bindi miklar vonir við Katrínu í því uppbyggingarstarfi sem framundan er hjá félaginu. Katrín hefur reynslu af þjálfun yngri flokka. Hún var einnig aðstoðarþjálfari kvennaliðs KR árið 2018.
Katrín hefur ekki gefið út að hún sé hætt í fótbolta. Hún gæti því orðið spilandi aðstoðarþjálfari í Lengjudeildinni á komandi leiktíð.