Freyr Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfari Íslands er langt kominn á veg í viðræður við Al-Arabi í Katar um að gerast aðstoðarþjálfari liðsins. Þetta herma öruggar heimildir 433.is. Ef ekkert óvænt kemur upp skrifar Freyr undir á næstu dögum.
Sömu heimildir herma að Freyr muni halda áfram sem aðstoðarlandsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins. Bæði Knattspyrnusamband Íslands og Al-Arabi hafa samþykkt slíkt.
Heimir Hallgrímsson er þjálfari Al-Arabi en hann nýtti sér starfskrafta Freys þegar hann var landsliðsþjálfari Íslands. Með Al-Arabi leikur svo Aron Einar Gunnarsson.
Freyr hefur verið aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins síðustu rúmu tvö árin með Erik Hamren sem tók við af Heimi. Íslenska landsliðið er í dauðafæri að komast inn á Evrópumótið næsta sumar, liðið leikur til úrslita um laust sæti í nóvember gegn Ungverjalandi.
Samkvæmt heimildum 433.is ætti Freyr að halda af landi brott á næstu dögum til að skrifa undir hjá Al-Arabi.
Heimir Hallgrímsson tók við þjálfun Al-Arabi undir lok árs 2018 og hálfu ári síðar gekk Aron Einar til liðs við félagið.