Ljóst er að Gylfi Þór Sigurðsson miðjumaður íslenska landsliðsins verður ekki með gegn Belgíu í Þjóðadeildinni á miðvikudag. Gylfi yfirgaf herbúðir íslenska landsliðsins í morgun og hélt út til Englands.
„Það var búið að taka þá ákvörðun fyrir þetta verkefni að Gylfi færi út eftir fyrstu tvo leikina,“ sagði Freyr Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfari við 433.is í morgun.
Gylfi skoraði bæði mörk Íslands í sigrinum mikilvæga gegn Rúmeníu á fimmtudag, hann lék svo allan leikinn í tapi gegn Dönum í gær.
Fleiri leikmenn yfirgáfu íslenska hópinn í morgun en Jóhann Berg Guðmundsson hélt til Englands með Gylfa og Aron Einar Gunnarsson er á leið heim til Katar. Jóhann gat ekki leikið í gær en hann fann fyrir eymslum í nára, hann ætti þó að vera leikfær um komandi helgi með Burnley.
Gylfi Þór á fyrir höndum stórleik um helgina þegar Everton og Liverpool eigast við í slagnum um Bítlaborgina en Gylfi byrjaði sinn fyrsta deildarleik í síðustu umferð.
Ljóst er að það verður mikið breytt lið sem Ísland stillir upp á miðvikudag gegn besta landsliði í heimi en Kári Árnason, Alfreð Finnbogason og Ragnar Sigurðsson hafa allir meiðst í þessu verkefni.