fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
433Sport

Vonarstjörnurnar gefa Íslendingum von

Hörður Snævar Jónsson
Miðvikudaginn 30. september 2020 07:50

Sveindís Jane í leik með íslenska landsliðinu

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Þór Hauksson virðist vera á réttri leið með kvennalandsliðið ef marka má frammistöðuna hjá ungum og efnilegum leikmönnum. Liðið er á toppi riðilsins ásamt Svíum eftir síðasta verkefni.

A-landslið kvenna mætti Svíþjóð á Laugardalsvelli á þriðjudagskvöld, í toppslag riðilsins í undankeppni EM 2022. Fyrir leikinn voru bæði lið með fullt hús stiga eftir fjóra leiki. Sænska liðið, sem situr í 5. sæti á styrkleikalista FIFA, var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og náðu Svíar að skapa sér nokkur góð færi, en eina mark fyrri hálfleiks skoraði Anna Avnegård á 33. mínútu og gestirnir voru komnir í forystu.

Íslenska liðið var betra liðið á vellinum í seinni hálfleik, sótti stíft og uppskar jöfnunarmark á 62. mínútu. Sveindís Jane Jónsdóttir tók þá langt innkast sem rataði á Elínu Mettu Jensen sem skoraði með skalla á nærstöng. Ísland og Svíþjóð eru því áfram jöfn að stigum í efstu tveimur sætum riðilsins, bæði lið með 13 stig eftir fimm leiki, en Svíar í efsta sæti á markatölu.

Sveindís stal senunni

Segja má að áhugafólk um kvennaknattspyrnu gangi um götur bæjarins með bjartsýni í farteskinu eftir leikinn. Ungir leikmenn liðsins sem eru að stíga sín fyrstu skref vekja von í brjósti þjóðarinnar. Sveindís Jane Jónsdóttir, fædd árið 2001, var að spila sína fyrstu landsleiki í þessu verkefni, hún heillaði marga.

„Það er líkamlegt atgervi, hraði og styrkur,“ segir Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks þar sem Sveindís leikur, en þrír yngstu leikmenn liðsins gegn Svíþjóð koma allir úr herbúðum Breiðabliks.

„Hún gæti verið góð í hvaða íþrótt sem er, hún væri frábær í frjálsum íþróttum, góð í körfubolta og handbolta. Hún gæti verið í öllu, hún hefur hraðann, sprengju og styrk sem kemur frá náttúrunnar hendi. Hraði og styrkur hefur alltaf skipt máli, tækni og leiksskilningur þarf að fylgja með. Hann vegur mjög þungt, leikmaður sem er kannski ekki fljótur en tæknilega frábær getur snýtt mörgum með klókindum.“

Þorsteinn telur næsta víst að fjöldi erlendra liða muni reyna að klófesta Sveindísi sem er samningsbundin Keflavík en er á láni í Kópavoginum.

„Það eina sem ég sé núna er að hún átti að vera
löngu búin að fara í sterkara lið. Það er leiðinlegt að segja það við Keflavík en hún hefði höndlað þetta skref miklu fyrr, hún hefði mátt koma til okkar fyrir einu eða tveimur árum. Hún hefði þurft sterkara æfingaumhverfi fyrr, það er ekki hægt að gagnrýna neitt.

Keflavík á allt í henni, við vorum ekki að finna hana upp. Ég spyr mig að því hvar hún væri stödd ef hún hefði komið fyrr til okkar eða eitthvert annað í sterkara umhverfi. Það kæmi mér ekkert á óvart ef erlend félög reyna að fá hana núna, það er spurning hvaða skref hún vill taka. Hversu hratt hún vill taka skrefið, hvort hún fái lið sem hún vill fara til. Hún þarf að gefa sér tíma í að taka ákvörðun, það er ljóst að lið munu bera víurnar í hana.“

Hin klóka Alexandra

Alexandra Jóhannsdóttir er að klára sitt þriðja tímabil í herbúðum Breiðabliks þrátt fyrir að vera aðeins tvítug. Hún hefur spilað yfir 100 leiki í meistaraflokki og var að spila sinn sjöunda A-landsleik gegn Svíum.

„Alexandra hefur mikla tilfinningu fyrir leiknum, les leikinn vel og pælir mikið í þessu. Hún undirbýr sig vel, skoðar andstæðinga sína vel og veit hvað hún er að fara út í.
Líkamlega sterk og tæknilega góð, hún var að spila aftar á vellinum með landsliðinu en hún gerir hjá okkur.

Hún hefur þann eiginleika að vera mikil fótboltakona, hún pælir mikið í hlutunum þegar hún skoðar andstæðinga sína. Þegar við erum að sýna leikmönnum klippur þá er hún sá leikmaður sem pælir mest í því.“

Alexandra byrjaði 14 ára í meistaraflokki með Haukum. „Við vissum hvað við vorum að fá þegar hún kom. Ég held að Alexandra eigi eftir að ná langt, hún hefur þannig metnað og er þannig karakter. Hún er klár í að leggja það á sig sem þarf.“

Karólína gerir hluti sem aðrar reyna ekki

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er líkt og Sveindís fædd árið 2001 en hún er á sínu þriðja tímabili í herbúðum Breiðabliks. Hún er frænka Gylfa Þórs Sigurðssonar, fremsta knattspyrnumanns Íslands.

„Karólína hefur tekið miklum framförum á síðustu tveimur árum, það tók hana tíma að venjast umhverfinu hjá okkur. Vera í samkeppni og komast ekki alltaf í liðið, síðan hefur hún tekið slaginn og vann sig inn hægt og rólega. Hún er leikmaður sem getur gert hluti sem engum öðrum dettur í hug að gera. Tæknilega mjög góð og útsjónarsöm.

Það sást gegn Svíum, þó að Sveindís hafi fengið fyrirsagnirnar eftir leik, að Karólína var besti leikmaður liðsins sóknarlega í fyrri hálfleik. Ég hef gagnrýnt hana fyrir að skora ekki nóg og það er kannski best að gera það aftur núna,“ segir
Þorsteinn. Hann er bjartsýnn á framhaldið og vonarstjörnur Íslands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Fyrrum Liverpool-maðurinn fékk stígvélið

Fyrrum Liverpool-maðurinn fékk stígvélið
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

17 ára drengur handtekinn vegna ummælanna á netinu

17 ára drengur handtekinn vegna ummælanna á netinu
433Sport
Fyrir 21 klukkutímum

Áhrifavaldurinn heimsfrægi fór langt yfir strikið í beinni útsendingu: Minnti hann á frægt framhjáhald – ,,Börnin mín líta upp til hans“

Áhrifavaldurinn heimsfrægi fór langt yfir strikið í beinni útsendingu: Minnti hann á frægt framhjáhald – ,,Börnin mín líta upp til hans“
433Sport
Í gær

Ancelotti blæs á sögusagnirnar

Ancelotti blæs á sögusagnirnar
433Sport
Í gær

Ætla ekki að reka ástralann

Ætla ekki að reka ástralann