Einum leik er lokið í Lengjudeildinni í dag. Tindastóll rúllaði yfir botnlið Völsungs á Húsavík og tryggði sér þar með sæti í deild þeirra bestu að ári.
Leiknum lauk með 0-4 sigri Tindastóls sem styrktu stöðu sína á toppi deildarinnar. Þær Bryndís Rut Haraldsdóttir, Hugrún Pálsdóttir, Rakel Sjöfn Stefánsdóttir og markamaskínan Murielle Tiernan skoruðu mörk Tindastóls. Murielle skoraði sitt 22. mark í deildinni og er lang markahæst.
Eftir leikinn er Tindastóll með 40 stig þegar þrír leikir eru eftir. Völsungur situr á botni deildarinnar með þrjú stig.
Ef litið er á stöðutöfluna má sjá að Keflavík er í öðru sæti með 33 stig og Haukar eru í þriðja sæti með 29 stig. Bæði lið hafa spilað einum leik minna en Tindastóll. Í pottinum eru 12 stig í boði fyrir Keflavík og Hauka. Þessi lið eiga eftir báða sína innbyrðis leiki. Á morgun tekur Keflavík á móti Haukum og í síðustu umferðinni, þann 9. október, taka Haukar á móti Keflavík.
Það er því mikil spenna í því hvaða lið mun fylgja Tindastól upp í efstu deild.
Þrír leikir verða spilaðir í kvöld. Víkingur R. tekur á móti Fjölni, ÍA tekur á móti Aftureldingu og Augnablik tekur á móti Gróttu.
Völsungur 0 – 4 Tindastóll
0-1 Bryndís Rut Haraldsdóttir
0-2 Hugrún Pálsdóttir
0-3 Rakel Sjöfn Stefánsdóttir
0-4 Murielle Tiernan