Á morgun fer fram einn af úrslitaleikjum sumarsins í efstu deild karla þegar FH tekur á móti Val klukkan 16:15. FH er átta stigum á eftir Val en liðin eiga eftir að mætast í tvígang og að auki á FH leik til góða.
Þannig eru bæði lið í þeirri stöðu að geta treyst á sig sjálft, vinni FH eða Valur alla sína leiki er ljóst að það lið verður Íslandsmeistari. Valur á sjö leiki eftir en FH átta, fari Valur með sigur af hólmi á morgun er liðið langt komið með það að vinna deildina.
Ólafur Karl Finsen var lánaður til FH frá Val í félagaskiptaglugganum í ágúst, lagalega séð er bannað að setja ákvæði um að leikmaður geti ekki spilað gegn félaginu sem hann kemur frá. Sökum þess er iðulega sett inn upphæð í lánssamninga sem félög eru ekki klár í að borga ef leikmaðurinn á að spila gegn félaginu sem hann er samningsbundinn.
„Hann má spila en það er ákvæði í samningum um að það kostar,“ sagði Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, í samtali við Fótbolta.net í dag.
Samkvæmt heimildum 433.is er upphæðin sem FH þarf að borga til þess að Ólafur Karl spili á morgun í kringum 5 milljónir íslenskra króna. Því eru engar líkur á því að FH noti Ólaf Karl á morgun enda 5 milljónir ansi stór upphæð fyrir íslenskt knattspyrnufélag.
Ólafur Karl hefur komið sterkur inn í lið FH sem er á skriði en hann var á skotskónum í 4-1 sigri á Fylki á mánudag.