Rúnar Alex Rúnarsson er skrefi nær því að ganga í raðir Arsenal eftir að hafa staðist læknisskoðun hjá félaginu í gær.
Dijon og Arsenal hafa náð samkomulagi um kaupverðið en samkvæmt heimildum 433.is hækka laun Rúnars all verulega við skiptin.
Rúnar Alex mun skrifa undir fimm ára samning við Arsenal, fjögurra ára til að byrja með en með möguleika á fimmta árinu.
Arsenal þarf að klára félagaskiptin fyrir hádegi í dag til að Rúnar Alex geti verið í hóp gegn West Ham. líklegt er að það takist. Félagið seldi Emiliano Martinez í vikunni og á Rúnar Alex að taka hans stöðu. Matt Macey verður því líklega á bekknum og Bernd Leno í markinu um helgina.
Ensk blöð telja að Rúnar Alex gæti þreytt frumraun sína með Arsenal strax í næstu viku þegar Arsenal mætir Leicester í enska deildarbikarnum. Algengt er að varamarkvörður og menn sem spila minna byrji leiki í deildarbikarnum.
Árið 2014 fór Rúnar til danska liðsins Nordsjælland frá KR en þá var hann aðeins 18 ára gamall. Árið 2018 fór Rúnar frá danska liðinu og yfir til Frakklands í Dijon.