Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu tók á móti Lettlandi á Laugardalsvelli í kvöld í undankeppni fyrir Evrópumót kvenna í knattspyrnu sem fram fer árið 2022. Ísland hafði unnið alla þrjá leiki sína í F-riðlinum fyrir leikinn. Sigurgangan hélt áfram í kvöld.
Íslenska landsliðið byrjaði af krafti. Elín Metta Jensen skoraði fyrsta mark leiksins strax á 1. mínútu. Á 7. mínútu var síðan komið að Sveindísi Jane Jónsdóttur að skora sitt fyrsta A-landsliðsmark og það í sínum fyrsta A-landsleik. Staðan orðin 2-0 fyrir Ísland.
Íslenska landsliðið var með algjöra yfirburði á vellinum. Dagný Brynjarsdóttir bætti við tveimur mörkum fyrir Ísland á 19. og 22. mínútu. Sveindís Jane var síðan aftur á ferðinni þegar að hún skoraði fimmta mark Íslands á 32. mínútu. Dagný fullkomnaði síðan þrennuna þegar hún skoraði eftir fyrirgjöf frá Gunnhildi Yrsu á 40. mínútu. Staðan var 6-0 þegar flautað var til leikhlés.
Heldur færri mörk voru skoruð í seinni hálfleik. Á 70. mínútu varð Karlina Miksone fyrir því óláni að skora sjálfsmark, staðan því orðin 7-0 fyrir Ísland. Alexandra Jóhannsdóttir bætti síðan við 8 marki Íslands á 86. mínútu. Það var svo Karólína Lea VIlhjálmsdóttir sem kórónaði 9-0 sigur Íslands. Frábær frammistaða hjá Íslenska liðinu í kvöld.
Næsti leikur Íslands er þriðjudaginn 22. september, klukkan 18:00 á Laugardalsvelli gegn Svíþjóð. Um stórleik er að ræða þar sem liðin eru jöfn á toppi F-riðils með 12 stig hvor.
Ísland 9 – 0 Lettland
1-0 Elín Metta Jensen (‘1)
2-0 Sveindís Jane Jónsdóttir (‘7)
3-0 Dagný Brynjarsdóttir (’19)
4-0 Dagný Brynjarsdóttir (’22)
5-0 Sveindís Jane Jónsdóttir (’32)
6-0 Dagný Brynjarsdóttir (’40)
7-0 Karlina Miksone (’70 sjálfsmark)
8-0 Alexandra Jóhannsdóttir (’86)
9-0 Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (’91)