Það var því eflaust ekki skemmtilegt fyrir Bournemouth aðdáendur þegar Danny Ings setti boltann í netið þeirra og kom Southampton yfir skömmu fyrir hlé. Um miðjan seinni hálfleik fékk Southampton síðan víti og leit allt út fyrir að draumar Bournemouth um að halda sér uppi væru að hverfa. Danny Ings fór á punktinn en klúðraði vítinu og gaf um leið Bournemouth eitthvað til að trúa á.
En Bournemouth náði ekki að skora hvað sem þeir reyndu, þeir fækkuðu í vörn og reyndu að sækja meira fram en það gekk brösulega. Bournemouth náði að skora á lokamínútum leiksins en Callum Wilson var dæmdur rangstæður með VAR-tækninni. Að lokum skoraði Southampton mark í uppbótartíma og vann leikinn 2-0.
Með þessu tapi er það orðið nánast ómögulegt fyrir Bournemouth að komast hjá falli. Liðið situr í næst neðsta sæti deildarinnar en öll hin liðin í botnbaráttunni eiga leik til góða. Það þarf allt að ganga upp til að Bournemouth falli ekki og er það afar ólíkleg niðurstaða.