Jóhann Berg Guðmundsson byrjaði inn á í leik Burnley gegn Norwich í kvöld. Var þetta fyrsti leikur Jóhanns sem byrjunarliðsleikmaður í langan tíma en hann hefur verið að glíma við meiðsli. Burnley sigraði Norwich 2-0 en Norwich var nú þegar fallið úr deildinni fyrir leikinn.
Emiliano Buendia, leikmaður Norwich, fékk rautt spjald í fyrri hálfleik. Þá var annar leikmaður Norwich sendur af velli skömmu fyrir hlé. Stuttu seinna lagði Jóhann upp fyrra mark Burnley í leiknum en það var Chris Wood sem skoraði markið. Erfitt var fyrir Norwich að koma til baka eftir það en Ben Godfrey, leikmaður Norwich, innsiglaði sigur Jóhanns og félaga með sjálfsmarki á 80. mínútu.