Ólafur Helgi Kristjánsson, sem hefur þjálfað FH síðan í ársbyrjun 2018, hefur verið ráðinn til danska liðsins Esbjerg. Hjörvar Hafliðason, stjórnandi hlaðvarpsins Dr. Football, greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni fyrr í dag.
Ljóst er að FH er án þjálfara og þarf félagið að finna nýjan til að klára leiktíðina. Í kjölfar viðburða dagsins hafa farið ýmsar sögusagnir af stað um það hver muni taka við FH. Hjörvar Hafliðason velti því fyrir sér hvort Davíð Þór Viðarsson, fyrrum fyrirliði FH, gæti tekið við keflinu en Davíð lagði skóna á hilluna eftir tímabilið í fyrra.
Orðið á götunni er þó að Eiður Smári Guðjohnsen taki við keflinu en Eiður er vel þekktur enda fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður sem er að margra mati einn besti knattspyrnumaður í sögu Íslands. Þá fylgir orðrómnum að Logi Ólafsson, sem þjálfaði síðast Víking Reykjavík, taki einnig við keflinu ásamt Eiði Smára en Logi hefur áður þjálfað FH.