Andri Fannar Baldursson spilaði óvænt fyrir lið Bologna um helgina sem mætti Udinese í Serie A. Andri er aðeins 18 ára gamall en hann kom til félagsins frá Breiðabliki og þykir mjög mikið efni.
Miðjumaðurinn ræddi við heimasíðu Bologna eftir leik og viðurkennir að tækifærið hafi verið óvænt í 1-1 jafntefli. ,,Ég er mjög ánægður með fyrsta leikinn. Ég hef lagt mig fram í vikunni en bjóst ekki við að fá tækifæri ef ég á að vera hreinskilinn,“ sagði Andri.
,,Stjórinn sagði mér að fara út á völlinn og skemmta mér, ég reyndi að gera mitt besta og okkur tókst að skora gott jöfnunarmark.“
Rúmt ár er síðan Bologna fékk Andra frá Breiðabliki en hann hafði spilað einn leik í Pepsi Max-deildinni áður en hann hélt út. ,,Andri Fannar Baldursson er yngsti leikmaður Íslands sem spilar leik í efstu deild í fimm sterkustu deildum Evrópu (England, Þýskaland, Frakkland, Spánn & Ítalía). Vel gert og verður gaman að fylgjast með hans framgöngu næstu misserin,“ skrifa umboðsmenn hans í Stellar Nordic á Facebook.