Rúmlega tvítugur piltur kveðst hafa slasast í viðskiptum við lögreglu í miðborg Reykjavíkur í nótt. Fréttablaðið segir frá málinu. Í myndbandi áður en atvikið á sér stað má sjá lögreglumann öskra á piltinn og skipa honum að leggjast í jörðina. Myndbandið hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum en var tekið úr út frétt DV vegna nýrra tíðinda í málinu.
Lögreglan hafnar þessum ásökunum sem drengurinn heldur fram. ,,Vegna frétta í fjölmiðlum í dag um handtöku ungs manns og lýsingu á tilurð áverka á honum, m.a. brotnar tennur og hugsanlegt kjálkabrot, vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu taka fram að eftir skoðun á myndefni frá vettvangi verður ekki annað ráðið en áverkir mannsins hafi verið tilkomnir áður en lögreglan var kölluð til og staðfestir myndefnið það,“ sagði lögreglan í yfirlýsingu.
Drengurinn kveðst hafa verið að taka upp handtöku í miðbænum þegar hann segist hafa orðið fyrir árás lögreglumanns. ,,Lögreglumaður æddi að honum og slengdi honum í jörðina með þeim afleiðingum að hann skall með andlitið í jörðina,“ segir í frétt Fréttablaðsins um málið.
Lögreglumaðurinn sem í hlut átti er knattspyrnumaður í efstu deild karla, Pepsi Max deildinni.
Í skýrslu læknis sem drengurinn birtir á Instagram segir að brotnað hafi upp úr tönnum hans, lögreglan segir að það hafi ekki gerst við handtökuna. ,,Brot upp úr 6 tönnum, og skurður á höku eftir áverka. Grunur um kjálkabrot,“ segir í skýrslu læknis um málið en drengurinn leitaði á læknavaktina eftir málið.
Fréttin hefur verið uppfærð. Vegna þeirra upplýsinga sem fram koma í yfirlýsingu lögreglunnar hefur myndband sem fylgdi fréttinni verið tekið út, sem og nafn og mynd af lögreglumanninum sem í hlut átti.