Finnur Tómas Pálmason og Emil Ásmundsson, leikmenn KR eru báðir meiddir. Þetta staðfesti Rúnar Kristinsson í samtali við 433.is.
Finnur Tómas er ristabrotinn og verður frá næstu vikurnar en Emil Ásmundsson, er með slitið krossband og verður ekkert með í sumar. Emil sleit krossband í leik með KR gegn Fylki fyrir viku síðan, hann gekk í raðir félagsins í vetur frá Fylki.
,,Emil er með slitið fremra krossband, tímabilið eins og það leggur er búið. 8-12 mánuðir, getum ekkert reiknað með honum,“ sagði Rúnar um stöðuna á Emil sem er miðjumaður.
Emil festi takkana í þurru gervigrasi í Egilshöllinni, ekki fyrsti og ekki síðasti leikmaðurinn sem slítur krossband í Egilshöll.
Finnur Tómas var á reynslu hjá Rangers þar sem hann brotnaði. ,,Hann brotnaði hjá Rangers, Finnur þarf að fara í aðgerð. Það eru þrír mánuðir eftir aðgerð, sem hann er frá. Vonandi kemst hann í aðgerð sem fyrst. Finnur missir líklega af byrjun Pepsi Max-deildarinnar.“
Þarf Rúnar að bregðast við þessu og kaupa leikmenn? ,,Við fengum þessar fréttir bara staðfestar í morgun, við þurfum að taka stöðuna. Við erum með breiðan hóp en hann minnkar við þetta. Samkeppnin er minni, við sjáum stöðuna á næstu vikum.“
Finnur Tómas var besti ungi leikmaðurinn í Pepsi Max-deildinni í fyrra þegar KR vann deildina afar sannfærandi.