Það er ný stjarna komin upp á sjónarsviðið í knattspyrnunni en sá strákur ber nafnið Erling Braut Haland.
Haland er 19 ára gamall Norðmaður en hann skrifaði undir samning við RB Salzburg fyrr á þessu ári.
Haland kom til félagsins frá Molde í Noregi þar sem hann skoraði 14 mörk í 39 deildarleikjum sem táningur. Strákurinn er einn allra efnilegasti leikmaður heims og er byrjaður að raða inn mörkum með Salzburg.
Norðmaðurinn hefur skorað 12 mörk í níu deildarleikjum sem er stórkostlegur árangur. Hann skoraði þrennu fyrir lið Salzburg í gær sem vann sannfærandi 6-2 sigur á Genk í Meistaradeildinni. Haland var að leika sinn fyrsta leik í Meistaradeildinni og er nú aðeins þriðji táningurinn til að skora þrennu í fyrsta leik.
Nú er sagt að 50 útsendarar frá stærri félögum hafi mætt á völlinn í gær til að fylgjast með Haland. Manchester United, var eitt þeirra félaga.
Ole Gunnar Solskjær, stjóri United þarf hins vegar ekki að sjá mikið af Haland. Hann þjálfaði hann í Molde og gaf honum sinn fyrsta leik í meistaraflokki. Samband þeirra er gott og telja ensk blöð að Solskjær hafi bestu spilin á hendi.
Það sem gæti unnið gegn United er að Erling er sonur Alf-Inge Håland, ferill hans fór í vaskinn eftir gróft brot frá Roy Keane, þá fyrirliða United. Alf-Inge Håland lék þá með Leeds.