Víkingur Reykjavík er komið í úrslit Mjólkurbikars karla eftir leik við Breiðablik í undanúrslitum í kvöld.
Blikar komust yfir í leiknum í kvöld en Thomas Mikkelsen skoraði úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik.
Víkingar svöruðu hins vegar fyrir sig með þremur mörkum og unnu að lokum 3-1 sigur. Liðið mætir FH í úrslitum í september.
Hér má sjá það góða og slæma úr leiknum.
Plús:
Víkingar voru hreint út sagt frábærir í leik kvöldsins og þá sérstaklega í seinni hálfleik – það tekur tíma að búa til lið og Arnar veit alveg hvað hann er að gera.
Það er ekkert smá vopn fyrir Víkinga að fá Óttar Magnús í framlínuna – einn öflugasti vinstri fótur landsins.
Óttar skoraði geggjað mark í leiknum. Hann smellti boltanum í slá og inn beint úr aukaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks.
Víkingar vilja spila skemmtilegan bolta og það heppnaðist vel í kvöld. Oft á tíðum áttu Blikar engin svör.
Það er svo gaman að sjá hvað Víkingar geta haldið boltanum og líka beitt gríðarlega hættulegum skyndisóknum. Það vantar ekki í vopnabúrið.
Mínus:
Mark Breiðabliks átti aldrei að standa. Vítaspyrna var dæmt í fyrri hálfleik eftir brot á Thomas Mikkelsen en hann var rangstæður. Fékk þó að standa.
Þorvaldur Árnason hefur átt betri leiki í dómgæslunni. Menn komust upp með alls konar hluti á Víkingsvellinum, stundum skiptir ferilskráin kannski máli.
Hvar er Gísli Eyjólfsson? Fengu Blikar rangan mann til baka? Var besti leikmaður efstu deildar í fyrra en hann er skugginn af sjálfum sér þessa dagana. Ósýnilegur að gera.
Blikar litu hreinlega út fyrir að vera mun verra lið en Víkingar – það er ekki gott fyrir komandi átök í Pepsi Max-deildinni þar sem mikill stigamunur er á liðunum.
Elfar Freyr Helgason fékk beint rautt spjald í leiknum. Hann fór glannalega í leikmann Víkings aftan frá og fékk verðskuldað rautt. Stuttu seinna reif hann rauða spjaldið af Þorvaldi dómara og henti því í grasið. Hvað ertu að hugsa? Eitt það heimskulegasta sem hann gat gert.